Skilmálar Hluthafaskrá.is

1.
Almennt

1.1

Kóði ehf. („Kóði“) á og rekur vefsíðuna hluthafaskra.is („kerfið“).

1.2

Kerfið gerir fyrirtækjum kleift að halda utan um hlutaskrá sína eins og hún er skilgreind í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Tilgangur kerfisins er að minnka áhættu á að félög vanræki skyldur sínar við að halda hlutaskrár og koma í veg fyrir hvers konar kostnað sem hlotist getur af því að halda slíkar skrár eða vanrækslu á því.

1.3

Kerfið felur þannig m.a. í sér þjónustu við skráningu upplýsinga í hlutaskrá skv. lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

1.4

Aðili sem óskar eftir aðgangi að kerfinu („viðskiptavinurinn“) undirgengst skilmála þessa og skuldbindur sig til að greiða Kóða fyrir notkun á kerfinu samkvæmt gjaldskrá kerfisins sem í gildi er á hverjum tíma.

1.5

Skilmálar þessir gilda um notkun kerfisins og þau viðskipti sem stofnað er til á grundvelli þeirra. Skilmálar þessir innihalda stöðluð ákvæði um réttindi og skyldur til handa viðskiptavinum og Kóða.

1.6

Viðskiptavinurinn hefur aðgang að þeim upplýsingum, sem vistaðar eru á vefsvæði félagsins hjá hluthafaskra.is, og getur enn fremur ákveðið að veita öðrum aðgang að gögnum sínum hjá hluthafaskra.is, í heild eða að hluta. Slíkur aðgangur getur verið tímabundinn, ótímabundinn eða takmarkaður við tilteknar upplýsingar.

1.7

Kóði áskilur sér rétt til að synja viðskiptavini um þjónustu að kerfinu án rökstuðnings fyrir slíkri ákvörðun.

1.8

Kóða er heimilt að afla allra gagna og upplýsinga sem Kóði telur nauðsynlegat til að ganga úr skugga um að færslur í kerfið séu réttar, meta viðskiptavininn og hæfi hans til að fá aðgang að kerfinu, meðal annars en ekki einskorðað við upplýsingar lögheimili, kennitölu og stjórnendur.

1.9

Kóði aflar nauðsynlegra upplýsinga um viðskiptavininn, stjórn og eigendur félagsins í þágu notkunar á kerfinu með aðgangi að opinberum upplýsingaveitum og/eða frá viðskiptavininum sjálfum sem svo eru vistaðar í kerfinu. Þá áskilur Kóði sér rétt á að senda áskrifendum og notendum tölvupóst í markaðslegum tilgangi.

1.10

2.
Skyldur Kóða

2.1

Kóði skal bera ábyrgð á að þjónusta sú sem veitt er með kerfinu sé í samræmi við skilmála þessa.

2.2

Uppfylli kerfið ekki þær kröfur sem skilmálar þessir kveða á um skal Kóði bæta úr slíkum göllum, sem með sanngirni má ætlast til, eins fljótt og auðið er. Kóði ábyrgist þó ekki að notkun viðskiptavinarins á kerfinu verði án allra vankanta, og/eða að upplýsingar í kerfinu uppfylli allar kröfur viðskiptavinarins.

2.3

Kóði ábyrgist að viðeigandi ráðstafanir hafi verið og verði gerðar til að tryggja öryggi kerfisins eins og Kóða er frekast unnt.

2.4

Kóði hefur öll leyfi, heimildir og samþykki sem nauðsynleg eru til þess að uppfylla þær skyldur sem á Kóða hvíla samkvæmt skilmálum þessum.

3.
Skyldur viðskiptavinarins

3.1

Viðskiptavinurinn skal veita Kóða alla þá aðstoð sem nauðsynleg er til að veita þjónustu kerfisins, þ. á m. veita aðgang að öllum þeim upplýsingum sem Kóði kann að óska eftir.

3.2

Viðskiptavinurinn skal fylgja öllum gildandi lögum, reglum og reglugerðum sem tengjast notkun kerfisins.

3.3

Viðskiptavinurinn ábyrgist gagnvart Kóða að öllum lögformlegum skrefum hafi verið fylgt við aðgerðir sem kunna að vera skráðar í kerfið, svo sem en ekki einskorðað við hækkun hlutafjár, lækkun hlutafjár, skráningu og afskráningu veða og tilkynningu um eigendaskipti.

3.4

Viðskiptavinurinn skal tryggja að eingöngu samþykktir notendur noti kerfið í samræmi við ákvæði samnings þessa og bera ábyrgð á öllum þeim brotum á samningi þessum, sem notendur kunna að valda. Viðskiptavinurinn skal enn fremur tryggja að aðgangsheimildir verði ekki veittar að ástæðulausu eða án viðhlítandi heimildar stjórnar, sé slíkrar heimildar þörf.

3.5

Við nýskráningu í kerfið fær stjórnarformaður viðskiptavinarins stjórnendaaðgang félagsins í kerfinu. Viðskiptavinurinn skal nánar skilgreina stjórnendaaðganga innan félagsins á hverjum tíma og annast meðal annars veitingu aðgangs til þriðja aðila og áskriftir að kerfinu. Stjórn viðskiptavinarins skal ávallt bera endanlega ábyrgð á efni hlutaskrár og öðrum lögformlegum aðgerðum hvað sem líður aðgangi stjórnenda að kerfinu.

3.6

Viðskiptavinurinn ábyrgist að hann hafi og muni hafa öll nauðsynleg leyfi, heimildir og samþykki sem nauðsynleg eru til að uppfylla þær skyldur sem á honum hvíla samkvæmt skilmálum þessum.

4.
Vinnsla persónuupplýsinga og vafrakökur

4.1

Kóði leggur sig fram við að hlíta lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

4.2

Kóði skuldbindur sig til að gæta fyllsta trúnaðar á gögnum viðskiptavinarins hvort sem um er að ræða persónugögn eða önnur gögn í eigu viðskiptavinarins. Kóði ábyrgist að veita þriðja aðila ekki upplýsingar um viðskiptavini sína án samþykkis viðkomandi viðskiptavinar nema lög, dómsúrskurður eða stjórnvaldsfyrirmæli mæli fyrir um slíkt.

4.3

Bæði Kóði og viðskiptavinurinn skulu gæta fyllsta trúnaðar varðandi meðhöndlun á samningi sem þeir hafa gert á milli sín og viðskiptavinurinn skal jafnframt gæta trúnaðar um öll þau málefni sem viðskiptavinurinn verður uppvís af. Trúnaður helst einnig að samningstíma loknum.

4.4

Vefkökur eru litlar textaskrár sem vistaðar eru á tölvu eða öðrum snjalltækjum þegar vefsvæði Hluthafaskrár er heimsótt í fyrsta sinn. Þegar þú heimsækir vefsíðuna næst í sama tæki man það eftir þér og hvernig þú notaðir síðuna.

4.5

Hluthafaskrá notar vefkökur í þeim tilgangi að bæta virkni vefsíðunnar með það að markmiði að bæta þjónustu við notendur. Það er stefna Hluthafaskrár að nota vefkökur með ábyrgum hætti. Hluthafaskrá notar vefkökur til að sníða vefsvæðið að þörfum notenda t.d. til að vista stillingar notenda, til að vinna tölfræðilegar upplýsingar, til að greina umferð um vefsvæðið og í markaðslegum tilgangi.

4.6

Allar persónuupplýsingar sem kunna að verða til við notkun á vefkökum verða meðhöndlaðar og unnið með í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Hluthafaskrá lýsir því yfir að ekki verði unnið með slíkar upplýsingar í öðrum tilgangi en að ofan greinir og þá verða upplýsingarnar ekki varðveittar lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu. Persónuupplýsingar verða ekki afhentar þriðja aðila nema lög kveði á um annað.

5.
Þóknun og gildistími

5.1

Áskrift tekur gildi um leið og viðskiptavinur hefur fengið aðgang að kerfinu og er ótímabundin. Áskrift er uppsegjanleg með eins mánaðar fyrirvara.

5.2

Viðskiptavinurinn greiðir mánaðarlegt gjald fyrir aðgang að kerfinu í samræmi við gjaldskrá kerfisins sem í gildi er á hverjum tíma.

5.3

Kóði áskilur sér rétt til þess að gera einhliða breytingar á gjaldskrá kerfisins. Slíkar breytingar skulu ávallt tilkynntar viðskiptavininum með að lágmarki 30 daga fyrirvara áður en þær taka gildi gagnvart viðskiptavininum.

5.4

Kóði sendir mánaðarlega út sundurliðaða reikning fyrir áskrift viðskiptavinarins að kerfinu nema um annað sé samið. Dráttarvextir skulu reiknast á kröfur sem greiddar eru eftir eindaga þann er reikningur tiltekur í samræmi við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvextir skulu reiknast frá gjalddaga til greiðsludags.

5.5

Athugasemdir vegna útgefinna reikninga skulu berast Kóða innan 30 daga frá útgáfudegi reiknings. Verði ágreiningur um fjárhæð reiknings er viðskiptavininum einungis heimilt að bíða með greiðslu á þeirri fjárhæð sem raunverulegur ágreiningur er um.

6.
Hugverkaréttindi

6.1

Allur vél- og hugbúnaður sem og hugverk sem Kóði leggur viðskiptavininum til samkvæmt samningi þessum er eign Kóða og er varið hugverkarétti. Viðskiptavininum er óheimilt að afrita, lána, framselja, veðsetja, selja eða ráðstafa þessum búnaði og/eða hugverki honum tengdum á nokkurn hátt nema með skriflegri heimild Kóða.

6.2

Viðskiptavininum eða verktökum á hans vegum, er með öllu óheimilt að breyta, stilla, uppfæra eða eiga með einhverjum hætti við miðlægan búnað í eigu Kóða.

6.3

Kóði staðfestir og ábyrgist að félagið sé réttur eigandi að hugbúnaðinum og hlutum þess sem Kóði veitir viðskiptavininum afnotarétt að sem og gagnvart hugverkaréttindum og skyldum réttindum þriðja aðila að þeim búnaði og gögnum sem kerfið geymir hverju sinni og tengjast kerfinu.

6.4

Viðskiptavininum er óheimilt að endurleigja eða lána aðgang að kerfinu til þriðja aðila með eða án endurgjalds

7.
Takmörkun ábyrgðar

7.1

Kóði ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að verða vegna gagnataps, tíma sem búnaður liggur niðri eða af töfum vegna þjónustunnar. Kóði ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til breytinga á veituspennu eða rafmagnstruflana eða annarra utanaðkomandi áfalla sem búnaður í hýsingarrými kann að verða fyrir, nema tjón verði rakið til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis Kóða eða starfsmanna Kóða.

7.2

Kóði er ekki bótaskyldur vegna tjóns sem orsakast af vali viðskiptavinarins á endabúnaði frá þriðja aðila eða tjóns sem er afleiðing á rangri notkun viðskiptavinarins eða þriðja aðila á kerfinu. Þá ber kóði ekki ábyrgð á göllum eða bilunum í hug- eða vélbúnaði.

7.3

Kóði ber ekki ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinurinn eða þriðji aðili sem ekki er á vegum Kóða veldur. Kóði ber ekki ábyrgð á töfum, skaða, tíma sem búnaður liggur niðri, eða svartíma þriðja aðila.

7.4

Kóði ber ekki ábyrgð á afleiðingum sem rekja má til slits á vélbúnaði eða bilunum á t.d. hörðum diskum og/eða öðrum vélbúnaði sem er í eigu viðskiptavinarins og er hýst hjá viðskiptavininum sjálfum.

7.5

Kóði ber ekki ábyrgð á réttmæti þeirra upplýsinga sem vistaðar eru í kerfinu, réttmæti þeirra breytinga sem skráðar eru í kerfinu eða tjóni sem kann að hljótast vegna þeirra. Upplýsingarnar eru ýmist fengnar úr opinberum upplýsingaveitum eða vistaðar af viðskiptavininum sjálfum og ber viðskiptavinurinn fulla ábyrgð á því að tryggja að téðar upplýsingar séu réttar og í samræmi við lög.

7.6

Viðskiptavinurinn ber ábyrgð á því að gögn sem Kóði hýsir fyrir viðskiptavininn brjóti ekki gegn ákvæðum þessara skilmála, lögum eða réttindum annarra. Komi til slíkra brota getur Kóði gripið til aðgerða sem heimilaðar eru lögum samkvæmt eins og t.d. að fjarlægja eða hindra aðgang að gögnum sbr. 14. gr. laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

8.
Rafrænar upplýsingar og undirskriftir

8.1

Rafræn pöntun á áskrift að kerfinu er jafngild skriflegum samningi, sbr. lög nr. 55/2019 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Við rafræna pöntun samþykkir kaupandi viðskiptaskilmála þessa.

9.
Lög og varnarþing

9.1

Um viðskiptaskilmála þessa, samninga og tilboð Kóða við viðskiptavininn gilda íslensk lög. Komi upp ágreiningur skulu viðskiptavinurinn og Kóði leitast við, í góðri trú, að jafna ágreininginn með samkomulagi. Verði ágreiningur ekki leystur með samkomulagi skal málið rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur